Með staðfestingu heilbrigðisráðherra þann 7. ágúst 2008 á tilmælum landlæknis um lágmarksskráningu á heilsugæslustöðvum og læknastofum og birtingu því til staðfestingar í B-deild stjórnartíðinda þann 28. sama mánaðar, þá hafa tilmælin hlotið ígild reglugerðar með tilsvísan í lög nr. 41/2007 um landlækni. Þar með eru tilmælin orðin að fyrirmælum og læknum skylt að uppfylla tilgreinda lágmarksskráningu. Þá er skylt að skila til landlæknis þessum upplýsingum þegar eftir þeim er kallað, en Landlæknisembættið áætlar að læknar skili inn gögnum í byrjun hvers árs fyrir árið sem leið.
Skræða hefur byggt inn í PMO möguleika á skráningu á öllum þeim atriðum sem landlæknir hefur tilgreint að falli undir lágmarksskráningu. Lang flest af þessum atriðum skrást sjálfkrafa við það eitt að sjúklingurinn er bókaður í kerfið en 7 atriði þarf að skrá sérstaklega, en skráning lang flestra þeirra falla undir það sem teljast verður eðlilegar og nauðsynlegar færslur við afgreiðslu sjúklinga.
PMO býður upp á skýrslugerð vegna þessara skila til landlæknis. Í ár mun Skræða útbúa skýrslur fyrir lækna Domus Medica að kostnaðarlausu fyrir þau gögn sem þeir hafa skráð í PMO á árinu 2008, en fljótlega mun verða sett upp einfalt skýrslugerðarviðmót sem hver og einn læknir eða læknastofa getur sjálf notað til að gera sína skýrslu. Bent skal á að Skræða telur sig ekki hafa umboð til að senda landlækni skýrslur nema að læknar fari sérstaklega fram á það.
Þá hefur Skræða útbúið aðgengilegar leiðbeiningar á heimasíðu sinni (www.sjukraskra.is) hvar og hvernig við daglega notkun PMO maður skráir þau atriði sem kveðið er á um í fyrirmælum landlæknis.
You must be logged in to post a comment.